H.elvítis D.jöfulsins R.usl / by Pétur Þór Ragnarsson

Höfðatorg

Ég þarf ekki að fara langt aftur í tíma til þess finna í mér gengdarlausa gremju gagnvart HDR myndum. Það er svo að mínu mati að HDR er gríðarlega vandmeðfarið en jafnframt öflugt tól í vopni nútíma ljósmyndarans. Eftir að ég fór að prófa þetta sjálfur fór ég nefninlega fljótlega að sjá ljósið. Ef við veltum því aðeins upp hvað HDR er (e.High dynamic range) að þá er það ekkert annað en aðferð sem við getum beitt við myndatökur til þess eins að auka tónsvið myndavélarinnar. Myndavélin, ólíkt mannsauganu, er þess einfaldlega ekki umkomin að birta fyrir okkur allt frá dýpstu skuggum yfir í háljós þegar við myndum við erfið birtu skilyrði. Margir stökkva þar af leiðandi beint á það sem augljóst er í þessum efnum. Taka margar myndir, t.d. fimm stykki með eins stopps bili og nota síðan Photomatix, Photoshop eða annan ámóta hugbúnað til þess að sjóða allt saman. En ef við hugsum um það eitt hvað HDR er, þ.e. aukið tónsvið í ljósmynd. Er þá ekki filtera notkun sem hefur verið svo gríðarlega vinsæl nokkuð annað en bara form af HDR. Við erum jú ekki að gera neitt annað en að auka tónsvið í mynd með því að notast við “graduated neutral density filter” sem dæmi.

Eftir að ég fór sjálfur að beita HDR tækninni er ég eiginlega alveg hættur notkun slíkra filtera eins og ég nefni hér fyrir ofan. Hugbúnaðurinn sem flestir ljósmyndarar hafa aðgang að gerir þá í ansi mörgun tilfellum gjörsamlega óþarfa, auk þess sem það er einum færri hlut til að hugsa um á meðan tökum stendur. Sjálfur læt ég hugbúnað nútímans leysa þau mál fyrir mig. Ég nota Photoshop HDR vélina og hún er að mínu mati afbrags góð þegar maður fattar hvað maður er með í höndunum.

Ég tek gjarnan fimm myndir með eins stopps bili og tryggi bara að hafa góða teikningu í bæði háljósum og skuggum. Í einstaka tilfellum getur verið að 5 stopp dugi ekki og þá bara hreinlega bæti ég við. Vélina hef ég nánast alltaf á þrífæti þó ég hafi alveg komist upp með það að halda á vélinni að þá verða gæðin ekki þau sömu, en sé lokahraðinn nægilegur að þá virkar vel að gera þetta fríhendis sé þrítóturinn fjarri góðu gamni.

Þegar heim er komið skelli ég myndunum fyrst inn í Lightroom og sortera. Þegar ég hef fundið þær fimm myndir sem ég vill smella saman í eina HDR hægri smelli ég einfaldlega á myndirnar fimm (með þær allar valdar) og vel þar valmöguleikann “Merge to HDR pro in Photoshop”. Myndunum er þá skellt saman í eina súpu í HDR vél Photoshop og það er hérna sem mér varð oftast á í messunni þegar ég var að byrja og mig grunar að flestar af þeim myndum sem ég kýs að kalla H.elvítis D.jöfulsins R.usl verða til. Út úr vélinni fæ ég mjög flata og óspennandi mynd, vægt til orða tekið. Í stað þess að hræra í öllum sleðunum í HDR vélinni sjálfri vista ég einfaldlega myndina og vinna hana í Lightroom. Vinn hana upp í kontrast og litum og tek síðan á smáatriðum í photoshop seinna.

Höfði

Slysin verða þegar menn missa sig á sleðunum í HDR vélinni sjálfri. En sitt sýnist hverjum. Mörgum finnst það sem út úr þeirri súpu kemur væntanlega flott og þess vegna verða allar þessar myndir til.

Það er til aragrúi af góðu kennsluefni um HDR sem hægt er nálgast frítt á netinu. Ég rakst til að mynda á einn flottan hérna hjá Really right stuff þrífóts framleiðandanum sem dæmi. Mér finnst mikilvægt að menn og konur skauti ekki bara fram hjá þessum flotta möguleika sem nútíma tækni bíður upp á. Ekki falla í sömu gryfju og ég í upphafi og dæma HDR ef þú færð ekki niðurstöðuna sem þú ert að leita að strax í upphafi. Ég í það minnsta gaf því séns og sé ekki eftir því í dag.